Markmiðið er að styrkja stærðfræðileiðtoga við að leiða hóp samkennara sinna í að efla faglegt námssamfélag með samræðum um stærðfræðinám og -kennslu. Á námskeiðinu er farið yfir hlutverk leiðtogans og kynnt efni til að nota í vinnu með samkennurum. Leiðtoginn fær bæði lesefni og hugmyndir að viðfangsefnum fyrir nemendur sem kennarahópinn getur unnið með. Milli námskeiðsdaga heldur leiðtoginn tvo fundi með samkennurum. Á fyrri fundinum er rætt um lesefni um stærðfræði og upplýsingatækni og gerð kennsluáætlun. Seinni fundurinn er haldinn að lokinni kennslu þar sem reynslan úr kennslunni er ígrunduð út frá umræðum um lesefni. Þetta ferli er endurtekið fjórum sinnum yfir skólaárið. Á þessu námskeiði er sjónum sérstaklega beint að notkun og möguleikum upplýsingatækni fyrir kennara, bæði hvernig þeir geta notað greiningalykla til að meta forrit og einnig til að gera kennsluna myndrænni og fjölbreyttari. Auk þess eru skoðuð verkfæri sem nemendur geta notað í námi sínu, bæði sem námstæki og til að setja fram niðurstöður sínar.
Fyrirkomulag
Uppbygging námskeiðsins er þannig að skólinn sendir 1-2 leiðtoga á námskeið. Leiðtogarnir mæta í sex skipti á námskeið, þrjá tíma í senn. Námskeiðið er byggt upp í kringum fjóra þróunarhringi. Á fyrstu tveimur námskeiðsdögunum er lögð áhersla á leiðtogahlutverkið og hvað einkenni virk námssamfélög. Á námskeiðsdögum er farið yfir fyrirliggjandi þróunarhring og reynsluna af þeim sem var að ljúka. Á síðasta námskeiðsdeginum er metið hvernig gengið hefur að efla námssamfélög í skólunum og hvernig leiðtogarnir sjá fyrir sér áframhaldandi vinnu að þróun stærðfræðikennslunnar í sínum skóla.
Námskeiðið stendur frá ágúst fram í maí. Þátttakendur geta bæði mætt á staðinn og tekið þátt í gegnum fjarfundabúnað. Gert er ráð fyrir að tímaframlag hvers leiðtoga sé um 50 klukkustundir og tímaframlag kennara í námssamfélaginu sé um 25 klukkustundir.
Fyrir hverja er námskeiðið?
Námskeiðið stærðfræði og upplýsingatækni er ætlað stærðfræðikennurum á yngsta stigi.
Umsjón
- Birna Hugrún Bjarnardóttir, verkefnisstjóri við Menntavísindasvið HÍ (birnahb@hi.is)
- Guðbjörg Pálsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ (gudbj@hi.is)
- Jónína Vala Kristinsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ (joninav@hi.is)